© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Síðara frumvarpið um breytingar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar gæti haft umtalsverð áhrif bæði á verðmæti útlánasafna og rekstur fjármálafyrirtækja. Helstu áhrifaþættir eru tímamörk á nýtingarsamningum til 15 ára, bann við veðsetningu aflaheimilda, hækkun veiðigjalds og fyrning aflaheimilda.

Þetta segir í skýrslu Bankasýslu ríkisins sem kom út í dag. Þar er farið yfir stöðu viðskiptabanka og sparisjóða á Íslandi. Í sérstökum kafla um áhættuþætti og lagaumhverfi er fjallað um áhrif breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þar segir að síðara frumvarpið, sem var frestað á Alþingi til haustsins, gæti haft töluverð áhrif.

„Aflaheimildir eru oft veðandlag lána til sjávarútvegsfyrirtækja. Veð banka myndu því rýrna við fyrningu aflaheimilda og takmörkun á nýtingartíma. Eiginfjárhlutföll sjávarútvegsfyrirtækja lækka sem hefur áhrif á fjárfestingargetu þeirra. Jafnframt hefur bann við veðsetningu aflaheimilda áhrif á framtíðarfjárfestingu. Greiðslugeta sjávarútvegsfyrirtækja mun versna við framangreindar breytingar. Því samfara mun greiðslugeta fjármálafyrirtækja líklega versna og þá sérstaklega í erlendum gjaldmiðlum þar sem stór hluti lána sjávarútvegsfyrirtækja er í erlendri mynt,“ segir í skýrslunni.

Af viðskiptabönkunum þremur vega lán til sjávarútvegs þyngst hjá Landsbankanum. Í árslok nam upphæðin 134 milljörðum króna, eða 22,6% af lánum til viðskiptamanna. Hjá Íslandsbanka var hlutfallið 13,2% eða 68 milljarðar króna og 10,6% hjá Arion banka, alls 47,7 milljarðar.