Fiskveiðistefna Evrópusambandsins fær falleinkunn í nýrri endurskoðunarskýrslu sem Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins hefur gefið út. Í skýrslunni segir m.a. að upplýsingar um fiskveiðar séu óáreiðanlegar og ófullkomnar og eftirlitskerfi ómarkviss og komi ekki í veg fyrir brot. Á það er einnig bent að ef ekki er hægt að styðjast við réttar upplýsingar, eftirlit og framkvæmd reglna fiskveiðistjórnunar, þá sé ómögulegt að byggja upp raunhæfa fiskveiðistefnu á vettvangi ESB.

Í frétt á heimasíðu LÍU segir að skýrsla Endurskoðunarréttarins komi í framhaldi af ítarlegri rannsókn þar sem könnuð var starfsemi framkvæmdastjórnarinnar og hvernig staðið væri að því að innleiða reglur í tengslum við fiskveiðistefnu ESB og miðla upplýsingum um veiðar í sex aðildarríkjum (Danmörku, Frakklandi, Ítalíu Hollandi, Spáni og Bretlandi).

Óhætt er að segja að skýrslan staðfesti það sem haldið hefur verið fram af hálfu forsvarsmanna LÍÚ að framkvæmd sjávarútvegsstefnu ESB sé í miklum ólestri, en flestir fiskistofnar á yfirráðasvæði sambandsins eru ofveiddir og í hættu, segir í fréttinni.

Niðurstöður endurskoðunarskýrslunnar eru annars í stuttu máli eftirfarandi:

  • Upplýsingar um fiskveiðar eru óáreiðanlegar og ófullkomnar.  Ekki er því   hægt   að vita hver raunveruleg veiði er.  Vegna þess að upplýsingar eru rangar geta þær ekki skapað réttan grunn fyrir ákvarðanir um fiskveiðikvóta.
  • Eftirlitskerfi aðildarríkjanna eru ómarkviss og koma ekki í veg fyrir brot á fiskveiðireglum og stefnu ESB í fiskveiðum.
  • Sektir aðildarríkjanna vegna brota á fiskveiðireglum hafa ekki fælingaráhrif.

Í skýrslunni er bent á að Framkvæmdastjórn ESB hafi ekki úrræði til að bregðast við með skjótum hætti til að þrýsta á aðildarríki þegar þau fara ekki eftir settum reglum. Ekki eru heldur til staðar eftirlitskerfi sem tryggja að réttar upplýsingar um framkvæmd fiskveiðireglnanna í aðildarríkjunum berist til Framkvæmdastjórnarinnar.  Því er einnig haldið fram að styrkjakerfi  ESB og aðgerðir sem miða að því að draga úr umframafkastageta fiskveiðiflotans séu ekki að skila árangri og geti ýtt undir brottkast og tilhneygingu til að gefa upp minni afla.

Skýrslan þykir undirstrika mikilvægi þess að framkvæmdastjórn sambandsins taki fiskveiðistefnuna til endurskoðunar, en áætlað er að á síðari hluta næsta árs verði ný stefna kynnt, eins og segir á heimasíðu LÍÚ.