Fiskverkunarfyrirtækið Tor ehf. í Hafnarfirði hefur ákveðið að segja upp 35 manns frá og með áramótum. Um er að ræða sérhæft fiskvinnslufólk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækin en Aðalsteinn Finsen, forstjóri Tor ehf., segir að ástæða uppsagnanna sé að frá því á haustmánuðum hafi fyrirtækið ekki getað fengið nægt hráefni á innlendum fiskmörkuðum til vinnslu. Miðað við óbreytt ástand sé því óumflýjanlegt að grípa til endurskipulagningar á starfseminni.

Þá kemur fram að fyrirtækið hefur keypt allt sitt hráefni á innlendum fiskmörkuðum, um 3-4000 tonn á ári.

„Við vonum að þetta ástand sé tímabundið því fyrirtækið stendur vel fjárhagslega,“ segir Aðalsteinn í tilkynningunni.

Hann segir það mikil vonbrigði að sjávarútvegsráðherra hafi fallið frá þeirri ákvörðun að afnema undanþágu erlendra fiskmarkaða til vigtunar á íslenskum fiski og vigta allan afla hér á landi. Ef þessi ákvörðun verði ekki endurskoðuð megi búast við að afli fari áfram óunninn úr landi og minna framboð verði á innlendum fiskmörkuðum.