Fiskvon ehf. greiddi hæstu meðallaun í sjávarútvegi á árinu 2007, samkvæmt samantekt Frjálsrar verslunar. Fyrir hvert ársverk var greitt 11,2 milljónir króna eða um 930 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.

Fiskvon ehf. er lítið útgerðarfyrirtæki á Patreksfirði sem gerir út dragnótabátinn Þorstein BA.

Í öðru og þriðja sæti koma útgerðir sem lengi hafa greitt hæstu meðallaun í greininn eða með þeim hæstu.

Stálskip ehf. í Hafnarfirði greiddi 9,9 milljónir að meðaltali í árslaun eða 826 þúsund krónur á mánuði.

Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum greiddi 9,3 milljónir króna í meðallaun á árinu eða 777 þúsund krónur á mánuði.

Á lista Frjálsrar verslunar yfir þau íslensk fyrirtæki sem greiddu hæstu meðallaunin árið 2007 ber mest á fjármálafyrirtækjum í 10 efstu sætunum. Aðeins eitt sjávarútvegsfyrirtæki er þar, Fiskvon í 9. sæti. Stálskip er í 12. sæti og Bergur-Huginn í 14. sæti.

Listinn ekki tæmandi

Rétt er að taka hér fram að meðallaun hjá útgerðum miðast við ársverk og endurspegla ekki alltaf raunveruleg laun einstakra skipverja, þar sem menn geta skipt með sér plássum.

Þá verður einnig að hafa í huga að listinn er ekki tæmandi því skráning á hann er undir því komin að fyrirtækin sjálf vilji gefa upplýsingar um laun eða yfirleitt vera með í úttekt Frjálsrar verslunar. Auk þess má nefna að minnstu útgerðirnar eru ekki í þessari úttekt. Hjá ýmsum þeirra kunna því að finnast launatölur sem ættu heima á listanum yfir hæstu meðallaun í sjávarútvegi.