Viðleitni íslenskra stjórnvalda til að draga úr gjaldeyrishöftum styður við lánshæfi landsins, samkvæmt mati starfsmanna lánshæfisfyrirtækisins Fitch. Bloomberg segir frá.

Þetta eru fyrstu viðbrögð í kjölfar tilkynningar Seðlabanka Íslands að hefja gjaldeyrisuppboð á ný. Samkvæmt Fitch er þetta skref til að endurheimta lánshæfi ríkissjóðs, sem hefur einkunnina BB+. Liður í því sé að létta á krónueignum í eigu erlendra aðila sem eru fastir með þær vegna gjaldeyrishafta.

Seðlabankinn býðst til að kaupa allt að 100 milljónir evra samanlagt í útboðunum tveimur. Útboðsfjárhæðin er háð þeim fyrirvara að hún er sameiginleg báðum útboðum og kann því að taka endanlegt mið af því. Seðlabankinn áskilur sér rétt til að hækka eða lækka útboðsfjárhæðina. Tilboðum skal skilað eigi síðar en 15. febrúar 2012.