Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch hækkaði í gær skammtímaeinkunn ríkissjóðs úr F1 í F1+ en langtímaeinkunnir eru óbreyttar sem A með stöðugum horfum. Landsþak (e. country ceiling) var einnig hækkað, úr A í A+, sökum þess að fjármagnshöftum hefur verið nánast aflétt að fullu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fitch . Þar kemur fram að hækkun skammtímaeinkunnarinnar megi að stórum hluta rekja til breyttrar aðferðar.

Spár Fitch gera ráð fyrir samdrætti árið 2019 en að hagkerfið taki við sér á næsta ári og hagvöxtur verði 2,5% á næsta ári. Samdráttinn má rekja til falls Wow air og hvarfs loðnunnar. Rímar þetta ágætlega við síðustu hagvaxtarspár greiningardeilda bankanna, Hagstofunnar og Seðlabankans.

Áframhaldandi lækkun skuldahlutfalls hins opinbera, studd varfærinni stefnu í opinberum fjármálum, ásamt frekari bata í ytri stöðu og viðnámsþrótti hagkerfisins til að bregðast við ytri áföllum, gætu leitt til hækkunar lánshæfiseinkunnar.