Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur í dag hækkað lánshæfismat Íslandsbanka í BBB/F3 úr BBB-/F3 með stöðugum horfum.

„Hækkun á lánshæfismati bankans byggir að mestu á batnandi rekstrarumhverfi á Íslandi og áframhaldandi hagvexti og bættri ytri stöðu þjóðarbúsins. Nýverið breytti Fitch Ratings horfum fyrir lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands í jákvæðar og staðfesti lánshæfiseinkunnina BBB+ fyrir erlendar skuldir,“ segir í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka ..

Lánshæfismatsfyrirtækið tekur jafnframt fram að Íslandsbanki hafi staðið vel að endurreisn bankans og að fjárhagsleg endurskipulagning lánabókar hafi gengið vel, búið sé að greiða upp skuldir tengdum stofnun bankans og flæði á kvikum krónueignum hafi verið vel stýrt.

Hverfandi hluti endurskipulagðra lána fer í vanskil

Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, segir við tilefnið að mikil vinna hafi farið fram síðustu ár við endurskipulagningu á eignarhlið efnahagsreiknings bankans. „Endurskipulagningu á lánasafni er nú lokið, vanskilahlutfall fer lækkandi og hverfandi hluti endurskipulagðra lána fer aftur í vanskil. Íslandsbanki hefur viðhaldið öflugum eiginfjár- og lausafjárhlutföllum til að takast á við möguleg áhrif vegna afléttingar hafta og áföllum í rekstarumhverfi,“ er haft eftir honum í fréttinni.

„Efnahagsumhverfi á Íslandi hefur haldist áfram hagfellt og staða bankans afar góð. Í því ljósi greiddi bankinn út 27 milljarða í arð í desember 2016 og tók þar með mikilvægt skref í átt að hagstæðari samsetningu á eiginfjárgrunni sínum. Aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum er gott og bankinn nú að fullu fjármagnaður á markaði. Hækkun á lánshæfiseinkunn Fitch í BBB/F3 með stöðugum horfum, og hækkun S&P í október 2016 í BBB/A-2, er í takt við þessa hagstæðu þróun,“ er að lokum tekið fram í frétt Íslandsbanka.