Matsfyrirtækið Fitch hefur hækkað lánshæfismat ríkisins fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt úr BB+ í BBB- og fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt úr B í F3. Horfur eru stöðugar að mati Fitch.

Í mati Fitch segir jafnframt að einkunnin fyrir lánshæfisþak landsins hækki jafnframt úr BB+ í BBB-.

Í umsögn fyrirtækisins segir m.a. að breytingin endurspegli þann árangur sem náðst hafi við að endurheimta stöðugleika í hagkerfinu eftir hrun, framfylgja kerfisumbótum og endurbyggja lánstraust ríkisjóðs. Þá er haft eftir Paul Rawkins, framkvæmdastjóra hjá Fitch, að endurskipulagning fjármálageirans sé vel á veg komin.

Icesave-málið er stór áhættuþáttur

Þá segir í umfjöllun Fitch að verði komist hjá áföllum ættu skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu að lækka á árinu. Eigi það að ganga eftir þurfi ríkisstjórnin að halda fast við markmið sín í ríkisfjármálum til millilangs tíma. Þá dragi miklar innstæður hins opinbera á reikningum í Seðlabankanum og stærð gjaldeyrisvaraforðans að draga úr áhyggjum vegna skammtímafjármögnunar ríkisins. Verulega hætta er hins vegar á að viðbótarskuldbindingar kunni að falla á ríkissjóð, svo sem kröfur vegna Icesave-reikninganna. Falli úrskurður EFTA-dómstólsins stjórnvöldum í óhag gætu skuldir hins opinbera hækkað um 6 til 13% af landsframleiðslu. Fitch segir því mikilvægt skref í þá átt að fjarlægja óvissuþáttinn úr fjármálum hins opinbera og koma aftur á eðlilegum asmskiptum við erlenda lánardrottna að finna lausn á deilunni.