Lausn Icesave-deilunnar er lykilatriðið fyrir því að matsfyrirtækið Fitch komi til með að breyta horfum á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Þetta kom fram í viðtali fréttaveitunnar Reuters við Paul Rawkins, framkvæmdastjóra greiningarteymis Fitch í Lundúnum í gær. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt er í spákaupmennskuflokknum BB+ en í innlendri mynt er hún þremur þrepum ofar, þ.e. BBB+ og eins og áður segir eru einkunnirnar á neikvæðum horfum.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um málið í dag.

„Telur Rawkins að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem líklega mun fara fram í apríl, gæti seinkað því að unnt sé að létta á þeim gjaldeyrishöftum sem hér eru við lýði, en það er jafnframt næsta stóra hindrun sem Íslendingar standa frammi fyrir að mati fyrirtækisins. Er því ljóst að matsfyrirtækið er enn þeirrar skoðunar að lausn Icesave málsins sé lykilatriðið til þess að hægt verði að endurreisa lánstraust ríkissjóðs á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, sem er í samræmi við álit matsfyrirtækjanna Moody´s og Standard & Poor´s,“ segir greiningin.

Bent er á að Fitch hafi þó ávallt kveðið nokkuð fastar að orði um samhengið á milli Icesave og lánshæfiseinkunn ríkissjóðs en hin fyrirtækin tvö. „Hefur því lítið breyst í þessum efnum frá því að Fitch lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs í byrjun síðasta árs í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands að vísa Icesave-samningnum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó er Rawkins bjartsýnni á þjóðaratkvæðagreiðsluna nú þar sem frumvarpið naut stuðnings mikils meirihluta alþingismanna og telur hann að kjósendur séu jákvæðari í garð þess samnings sem er á borðinu nú en var í fyrra.“

Lítil breyting á skuldatryggingarálagi.

Þá kemur fram í Morgunkorni að lítil breyting hafi orðið á skuldatryggingarálaginu á evruskuldir Ríkissjóðs Íslands frá því á föstudag, samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni.

„Þannig stóð álagið til fimm ára í rétt rúmum 240 punktum (2,40%) samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni síðastliðinn föstudag en í lok dags í gær stóð það í tæpum 245 punktum. Sömu sögu er að segja um álagið til eins árs sem stóð í lok dags í gær í 289 punktum en hafði verið tæpir 288 punktar á föstudag. Raunar ber að hafa í huga að markaður með skuldatryggingar á Ísland er afar grunnur og verðmyndun eftir því lítið virk.“