Matsfyrirtækið Fitch Rating segir í skýrslu sinni um lánshæfi Ríkissjóðs Íslands að öll tákn séu á lofti um að framundan sé erfitt tímabil á Íslandi vegna efnahagskreppunnar.

Í skýrslunni kemur fram að vel hafi gengið að aðlaga landið að nýjum aðstæðum í kjölfar bankahrunsins en engu að síður skuldastaða Ríkissjóðs mikil og hætta sé á því að bæði heimili og fyrirtæki muni ekki geta staðið við skuldbindingar sínar.

Þá kemur fram í skýrslu Fitch að stuðningur við upptöku evrunnar fari vaxandi. Matsfyrirtækið telur þó að ferlið við upptöku evru sé allt að fimm ár og því engin skammtímalausn.

Í skýrslu Fitch kemur fram að fyrirtækið býst við því að erlendar skuldir þjóðarbúsins hafi sjöfaldast og muni árið 2010 nema allt að 138% af þjóðarframleiðslu.

Fitch fer þó fögrum orðum um lífeyrissjóðina og segir að þeir muni gegna veigamiklu hlutverki í enduruppbyggingu fjármálakerfisins þrátt fyrir að hafa einnig orðið fyrir höggi.

Sjá skýrslu Fitch.