Fitch Ratings staðfesti í dag lánshæfiseinkunnir Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf.: langtímaeinkunn BBB-, skammtímaeinkunn F3, óháð einkunn C/D og stuðningseinkunn 3. Horfur lánshæfiseinkunnanna eru stöðugar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Staðfestingin kemur í kjölfar tilkynningar Straums-Burðaráss um kaup á 62% hlut í finnska bankanum eQ. Gert verður yfirtökutilboð í allt hlutafé og kauprétti í eQ.

Að sögn Fitch eru kaupin í takt við það markmið Straums-Burðaráss að verða leiðandi Norrænn fjárfestingabanki. eQ starfar í Finnlandi en kaupin passa vel við starfsemi Straums-Burðaráss á sviði fyrirtækjaráðgjafar og miðlunar á Norðurlöndum, sem að sögn Fitch er nú þegar með starfsemi á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð, auk Bretlandseyja og Hollands. Kaupin bæta eignastýringu við þjónustuframboð Straums-Burðaráss en eQ er leiðandi í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Þar sem þjónusta eQ skapar fyrst og fremst þóknunartekjur munu kaupin tryggja enn frekar vöxt stöðugra tekjustofna hjá Straumi-Burðarási.