Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest A lánshæfismat Kaupþings banka, segir í tilkynningu frá félaginu, og telur lánshæfishorfur bankans stöðugar.

Fitch segir lánshæfismatið endurspegla sterka stöðu Kaupþings á íslenskum bankamarkaði og vaxandi tekju- og eignadreifingu bankans í kjölfar kaupa erlendis á síðustu fjórum árum.

Matsfyrirtækið segir yfirtökur á danska bankanum FIH og breska bankanum Singer & Friedlandar hafa dregið úr áhrifum íslenska markaðarins á rekstur Kaupþings, auka arðsemi og dreifingu eigna.

?Það (lánshæfismatið) endurspeglar einnig gott eignasafn og fullnægjandi arðsemi," segir Fitch. Matsfyrirtækið tekur fram að góð arðsemi bankans sé mikilvæg þar sem bankinn er háður erlendum fjármálamörkuðum.

Íslensku bankarnir voru gagnrýndir harkalega í byrjun árs af erlendum greiningaraðilum, sem varð til þess að fjármagnskostnaður hækkaði og gengi hlutabréfa þeirra rýrnaði verulega í verði. Hins vegar hafa bankarnir nú að mestu leyti fjármagnað sig fyrir næsta ár.