Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings tilkynnti í gær lánshæfiseinkunnir fyrir Kaupþing banka hf. Fitch gefur bankanum langtímaeinkunnina A og skammtímaeinkunnina F1, óháða einkunn B/C og stuðnings einkunn 2. Horfur eru stöðugar.

Í tilkynningu frá Fitch, sem birtist á vef Kauphallarinnar, segir að einkunnirnar endurspegli sterka stöðu Kaupþings banka á íslenskum markaði, aukna fjölbreytni í tekjumyndun bankans, háa arðsemi og mikil gæði eigna. Einkunnirnar taka jafnframt tillit til töluverðrar stöðutöku í hlutabréfum, hugsanlegrar áhættu við samþættingu í framhaldi af nýlegum yfirtökum og því að bankinn er háður fjármögnun á fjármálamörkuðum.

Fitch segir að nýlegar yfirtökur í Danmörku og í Bretlandi hafi dregið verulega úr mikilvægi hins smáa íslenska markaðar í rekstri Kaupþings banka. Fitch er þeirra skoðunar að haldist arðsemi bankans viðunandi við erfiðari markaðsaðstæður og að innleiðing eininga sem bankinn hefur nýlega yfirtekið heppnist, þá geti það orðið til þess að þrýsta á frekari hækkun lánshæfismatsins í framtíðinni.

Fitch Ratings er annað matsfyrirtækið sem metur lánshæfi Kaupþings banka. Moodys Investors Service metur einnig lánshæfi bankans og gefur skuldbindingum Kaupþings banka til langs tíma einkunnina A1 og til skamms tíma einkunnina Prime-1.

"Hagstætt lánshæfimat Fitch mun styrkja fjármögnun Kaupþings banka á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum enn frekar," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka, í tilkynningu til Kauphallarinnar. "Það endurspeglar síaukna breidd í tekjumyndun, gæði eigna bankans og trausta áhættustýringu."