Alþjóðalega matsfyrirtækið Fitch Ratings gaf í dag út skýrslu um lánshæfi íslenska ríkisins en eins og kunnugt er setti Fitch íslenska ríkið á neikvætt viðhorf til lánshæfismats þann 1. apríl síðastliðinn vegna langtímaskuldbindinga í erlendri og innlendri mynt.

Í nýrri skýrslu segir Fitch Ratings að vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sé ríkissjóður enn viðkvæmur og vísar matsfyrirtækið þá helst til mikillar skuldastöðu bankanna og mögulegrar aðkomu ríkissjóðs að bönkunum lendi þeir í vandræðum.

Þá segir Fitch Ratings að bankarnir hafi á síðustu árum skuldsett sig mikið, bæði til að lána fyrirtækjum og einstaklingum (húsnæðislán) og eins til að stunda útrás og yfirtökur. Segir í skýrslu Fitch Ratings að bankarni hafi verið leiðandi fyrir erlenda skuldasöfnun.

Helsti gagnrýnispunktur Fitch Ratings er að ríkissjóður sé einfaldlega ekki nógu stór til að koma bönkunum til hjálpar ef á þarf að halda og þar af leiðandi séu aðstæður hér viðkæmvar. Í skýrslunni kemur fram að bankarnir hafi vaxið hratt á síðustu árum og velta þeirra séu nú níu sinnum stærri en ríkissjóðs.

„Fitch lítur svo á að litlar líkur séu á gjaldþroti ríkissjóðs, ríkissjóður er nánast skuldlaus og stendur nokkuð stöðugur. Bankarnir fóru í gegnum krísutímabil árið 2006 en hafa síðan þá tryggt sér fjármögnun og lausaféstaða þeirra er góð,“ segir í skýrslu Fitch Ratings.

„Engu að síður eru aðstæður þannig á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að því lengur sem það ástand varir því erfiðara verður fyrir bankana að fá aðgang að frekari fjármögnun og þurfi á aðstoð ríkissjóðs að halda,“ segir í skýrslunni.

Á vef Seðlabankans má sjá skýrslu Fitch Ratings á pdf-formi.