Matsfyrirtækið Fitch lækkaði í dag mat sitt á lánshæfiseinkunn Íslands í erlendum og innlendum gjaldeyri niður úr fjárfestingaflokki og í hinn svokallaða ruslflokk. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að þetta sé gert í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar,  um að vísa Icesave-samkomulaginu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Haft er eftir Paul Rawkins, framkvæmdastjóra hjá Fitch að ákvörðun forsetans hafi endurnýjað þá pólitísku, efnahagslegu og fjárhagslegu óvissu sem hafði ríkt á Íslandi. „Hún er einnig áfall fyrir tilraunir Íslands til að endurvekja eðlileg fjármálasamskipti við umheiminn.“