Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest BB- lánhæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur með stöðugum horfum.

Á meðal þeirra þátta sem fyrirtækið tiltekur í rökstuðningi fyrir einkunninni er góð framlegð í veiturekstri fyrirtækisins en ytri áhættuþættir séu enn til staðar.

Þá segir Fitch í tilkynningu sinni að góður árangur fyrirtækisins við að framfylgja fimm ára áætlunum sínum og bættar horfur í íslensku efnahagslífi séu ástæða þess að fyrirtækið metur horfur stöðugar.

Áhættuþættirnir sem um ræðir eru þá helst vegna þess að starfsemi OR er bundin við Ísland, og að áhrifa markaðsaðstæðna gæti þegar illa lætur - til að mynda þegar gengisjöfnuður er neikvæður eða þegar álverð og vaxtagreiðslur hækka.