Fitch Ratings hefur staðfest lánshæfiseinkunn Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. [ STRB ], sem er áfram með langtímaeinkunnina BBB-, skammtímaeinkunnina F3, óháðu einkunnina C/D og stuðningseinkunnina 3. Langtímahorfur eru stöðugar.

Í tilkynningu Fitch segir að einkunnin endurspegli fjárhagslegan styrk Straums, öran vöxt tiltölulega stöðugra tekna, aukna landfræðilega dreifingu bæði eignasafns og tekna og sterkari áhættustýringu.

Einkunnin er einnig sögð markast af því að tiltölulega lítil reynsla sé komin á starfsemi Straums í núverandi mynd, hlutabréfaeign bankans sé enn mikil, einstakir liðir vegi þungt í efnahagsreikningnum og óvissa sé um hvernig gangi að samþætta einingar á ólíkum mörkuðum.

Fitch tekur fram að samsetning bæði rekstrareininga og áhættu hafi batnað en bætir við að það eigi eftir að koma fram í sterkari efnahagsreikningi og rekstrarafkomu. Fitch segir að frekari árangur mundi styðja við hækkun einkunnar, en að fylgst verði með áhrifum erfiðra markaðsaðstæðna á bankann.

Í tilkynningunni er tekið fram að upplýsingagjöf hafi verið bætt umtalsvert að undanförnu og að lausafjárstaða Straums sé góð. Fjárhagslegur styrkur bankans er sagður veita honum umtalsverðan sveigjanleika til að vaxa, eins og stefnt sé að.