Íslenska bankakerfið er viðkvæmt fyrir afnámi gjaldeyrishafta, þótt staða þess sé mun betri nú en árið 2010, að mati Fitch Ratings. Seðlabankinn birti árlega skýrslu matsfyrirtækisins um Ísland á vefsíðu sinni í dag . Þar segir að mikill árangur hafi náðst í endurskipulagningu vanskilalána, sem hafi verið um 18% af heildarútlánum íslenskra banka árið 2010, en hafi verið um 9% í árslok 2012. Bankarnir séu aftur á móti viðkvæmir fyrir áhrifum af afnámi gjaldeyrishafta. Þá segir í skýrslunni að fjárhagsstaða Íbúðalánasjóðs fari stöðugt versnandi og að taka verði á henni innan tíðar. Fitch hækkaði í febrúar lánshæfiseinkunn Íslands í BBB.

Að mörgu leyti er skýrslan jákvæð fyrir Ísland. Þar segir t.d. að útlit sé fyrir að skuldir ríkisins hafi náð hámarki árið 2011 og fari nú minnkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Aukið aðgengi að erlendum lánamörkuðum hafi gert ríkinu kleyft að endurgreiða um 55% af lánum AGS og Norðurlandanna. Þá sé útlit fyrir að jafnvægi náist í ríkisrekstri fyrir árið 2016.

Aukin útgjöld umfram tekjur, sem myndu leiða til aukinnar skuldasöfnunar gætu aftur á móti leitt til þess að horfur fyrir lánshæfiseinkunn ríkisins yrðu metnar neikvæðar. Sama ætti við ef afnám gjaldeyrishafta yrði ekki með skipulegum hætti. Illa skipulagt afnám hafta gæti haft mjög neikvæð áhrif á gengi krónunnar og þar með jafnvel til lækkunar á lánshæfiseinkunn.

Aftur á móti segir í skýrslunni að frekari og skýrari upplýsingar um það hvernig taka eigi á aflandskrónum og hleypa þeim úr hagkerfinu gæti leitt til hækkunar á lánshæfiseinkunn sem og stöðugur hagvöxtur og minnkandi skuldahlutfall opinberra aðila og einkageirans.