Auglýsingastofan Fíton og lyfjafyrirtækið Alvogen hafa ákveðið að vinna saman að endurmörkun þess síðarnefnda á alþjóðlegum lyfjamarkaði og uppbyggingu vörumerkis félagsins til næstu ára. Markmið Alvogen er að komast í hóp tíu stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims á næstu fimm árum og með samstarfinu verður unnið að uppbyggingu öflugs alþjóðlegs vörumerkis segir í tilkynningu.

Alvogen er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum og starfsemi í sjö löndum.  Um mitt ár 2009 var tilkynnt um aðkomu Róberts Wessman að félaginu, en hópur alþjóðlegra fjárfesta undir forrystu hans fer með ráðandi hlut í félaginu. Alvogen hefur einnig tilkynnt um ráðningu starfsmanna á Íslandi en félagið hyggst ráða til sín á annan tug starfsmanna hér á landi.

Undanfarnar vikur hefur Fíton m.a. unnið að hönnun nýs vörumerkis, kynningarefnis og lyfjapakkninga fyrir Alvogen. Þá vinnur systurfélag Fíton, Atómstöðin, að nýjum vefsvæðum félagsins og dótturfélaga þess víða um heim og verða nýju vefirnir opnaðir einn af öðrum á næstu vikum segir í tilkynningu.

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Fítons, segir samstarfið við Alvogen vera mikla viðurkenningu enda sé um að ræða eitt stærsta mörkunarverkefni sem íslenskri auglýsingastofu hefur verið falið. „Við höfum unnið að og stjórnað nokkrum stórum endurmörkunarverkefnum, m.a. þegar Esso og Bílanaust urðu N1. Þetta verkefni er jafnvel enn stærra og hönnunarvinna okkar mun ná til mikils fjölda erlendra markaða á næstu árum. Undirbúningur er í fullum gangi en að honum loknum felst hlutverk okkar á Fíton í markaðsráðgjöf, gerð og hönnun auglýsinga, lyfjapakkninga og fleiri mikilvægum þáttum sem hjálpa Alvogen að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem félagið hefur sett sér.“

Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvogen segist mjög ánægður með samstarfið við Fíton í tilkynningu. „Markmið okkar er að koma Alvogen í hóp stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims. Til að ná því markmiði skiptir miklu máli að vörumerki okkar sé sterkt og það endurspegli stefnu og framtíðarsýn félagsins. Fíton er sterkur bandamaður, en við teljum einnig mikilvægt að nýta framúrskarandi þekkingu íslenskra fyrirtækja í vexti félagsins.„ Róbert segir jafnframt að fyrirhugað sé að Alvogen vinni með fleiri íslenskum fyrirtækjum í ýmsum verkefnum á næstu misserum.

Fíton er ein af stærstu auglýsingastofum landsins og býður upp á markaðsráðgjöf, auglýsingagerð og hönnun af öllu tagi. Auk Alvogen eru viðskiptavinir Fítons; N1, Vodafone, Ölgerðin, Iceland Express, VÍS, Hekla og Nói Síríus svo einhverjir séu nefndir.