Auglýsingastofan Fíton hefur stefnt Íslandsstofu vegna rammasamnings sem sá síðarnefndi gerði árið 2011 við Íslensku auglýsingastofuna annars vegar og Fíton hins vegar. Samningurinn var gerður vegna verkefnisins Ísland allt árið sem miðar að því að efla heilsársferðaþjónustu hérlendis. Samningurinn var gerður til þriggja ára og var áætlað verðmæti hans 173 milljónir króna. Auk þess var samið um að Íslenska auglýsingastofan myndi sjá um mótun á grunnhugmyndafræði verkefnisins.

Þrátt fyrir að rammasamningurinn hafi verið gerður hefur Íslandsstofa ekki keypt verk af Fíton heldur beint viðskiptum sínum alfarið að Íslensku auglýsingastofunni. Fíton ákvað af þessari ástæðu að stefna Íslandsstofu og krefjast helmings af þeim 173 milljónum sem samningurinn hljóðaði upp á, eða tæplega 87 milljóna króna. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .