Hollenska fjártæknifyrirtækið Five Degrees, sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki, hefur fest kaup á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Libra sem smíðar hugbúnaðar fyrir íslenskan fjármálamarkað.

Kaupin styðja við markmið Five Degrees um alþjóðlegan vöxt og gerir þeim kleift að bjóða uppá fleiri lausnir fyrir fjármálafyrirtæki og að hjálpa þeim að mæta nútímalegum kröfum segir í fréttatilkynningu.

Lausnir Libra fyrir fjármálafyrirtæki á sviði lána- og verðbréfaumsýslu auka til muna það úrval sem Five Degrees getur nú boðið viðskiptavinum sínum og styrkir framtíðarhorfur fyrirtækisins.

Libra býður liprari kerfi fyrir bankaþjónustu

Þegar þjónustuframboð Libra bætist við hugbúnaðarlausnir Five Degrees fyrir fjármálafyrirtæki, getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum sínum upp á alhliða stafræna lausn sem keppir við þá stóru á sviði hugbúnaðar fyrir fjármálamarkað.

Kaupin auðvelda Five Degrees að benda viðskiptavinum sínum á betri leiðir til að færa sig úr eldri og dýrari bakvinnslukerfum. Enn fremur geta fjármálafyrirtæki skipt út tilteknum aðgerðum fyrir liprari og nútímalegri kerfi sem auka möguleikana á betri bankaþjónustu.

Þá geta þau gengið skrefinu lengra og útvistað bankakerfunum og fullkomlega samhæft þjónustuumhverfi sitt. Með því að samnýta styrkleika Five Degrees og vöruframboð Libra, geta bankar notið góðs af aukinni skilvirkni og lægri kostnaði.

Með hátt í 50 starfsmenn á Íslandi

Hjá Libra starfa á fimmta tug vel menntaðs fagfólks sem er sérhæft á sama tæknisviði og starfsfólk Five Degrees og því getur það auðveldlega deilt þekkingu. Samleiðaráhrifin eru því sögð mikil í tilkynningunni.

Starfsfólk Libra er jafnframt sagt spennt fyrir því að kynna kerfin sín á evrópskum vettvangi. Kaupin styðja við skuldbindingu Five Degrees gagnvart nýsköpun, sem fer fram hér á landi, og flýtir fyrir áætlun þeirra um vöxt fyrirtækisins á sviði stafrænnar bankastarfsemi.

Á næstu árum mun krafan um að bankar skipti yfir í stafrænan rekstur aukast verulega. Þau munu þurfa að fjárfesta í nýjum kjarnakerfum sem opnar á tengingar við nýjustu lausnir á markaðstorgi fjártækninnar.

Five Degrees styður við banka á meðan þessi umskipti eiga sér stað, og undirbýr þá fyrir að taka upp nútímalega staðla sem bæði viðskiptavinir og eftirlitsstofnanir krefjast í dag segir enn fremur í tilkynningu félagsins.

Hafa alþjóðlegan mettnað

Martijn Hohmann, forstjóri Five Degrees segist ánægður með kaupin á Libra, sem sé að hans mati gríðarsterkt fyrirtæki á íslenskum fjármálamarkaði. „Við höfum alþjóðlegan metnað og ætlum okkur að ná leiðandi stöðu á markaði stafrænnar bankaþjónustu. Við höfum þróað skýra stefnu til að ná árangri á þessu sviði,“ segir Hohmann.

„Sameiginleg sérþekking, reynsla og árangur Five Degrees og Libra veitir okkur sérstöðu til að gera viðskiptavinum okkar kleift að skipta yfir í nýtt stafrænt umhverfi, og að njóta aukins sveigjanleika og draga úr kostnaði. Þessi kaup eru fullkomið tækifæri fyrir okkur að hraða framgangi og veita viðskiptavinum okkar aukið virði, starfsfólkið er einnig mjög spennt því það vill læra mikið af hvort öðru.“

Björn Hólmþórsson tæknistjóri og einn stofnanda Five Degrees með Hohmann segist sjá mikla möguleika við að sameina krafta þessa tveggja fyrirtækja. „Undanfarin misseri hefur Libra leitað vaxtarleiða til að styðja enn betur við viðskiptavini okkar og íslenskan fjármálamarkað til framtíðar,“ segir svo Þórður Gíslason, framkvæmdastjóri Libra.

„Að verða hluti af Five Degrees veitir okkur möguleika á að styðja við viðskiptavini okkar með nýrri tækni, vörum og þjónustu. Að auki munum við  nýta þekkingu og reynslu okkar á stærri markaði. Framtíðaráætlanir okkar passa vel við sýn Five Degrees og framtíðaráætlanir þeirra. Það eru spennandi tímar framundan!”