Íslensk-hollenska fjártæknifyrirtækið Five Degrees hefur gert samning við Swishfund sem fyrsta notanda á ° neo, nýrri skýjalausn fyrirtækisins fyrir bakvinnslukerfi í banka- og fjármálastarfsemi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Five Degrees.

Fjármálafyrirtækið Swishfund var stofnað árið 2016 en það sérhæfir sig í að veita lán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Hollandi og Bretlandi. Swishfund mun flytja öll viðskipti sín yfir í ° neo.

„Við erum sérstaklega ánægð með Swishfund sem okkar fyrsta viðskiptavin fyrir ° neo. Eftir að hafa boðið frábærum hópi fyrirtækja í Evrópu og Norður Ameríku framsæknar bankalausnir í áratug þróuðum við ° neo alveg frá grunni. Við höfum sameinað nýjustu skýjatækni og reynslu okkar síðustu 10 árin. Ég er mjög stoltur af því að sjá Swishfund innleiða ° neo til að ýta undir frekari vöxt," segir Björn Hólmþórsson, forstjóri Five Degrees á Íslandi.

„Markmið okkar hjá Swishfund er að veita viðskiptalán á auðveldan, fljótlegan og þægilegan hátt. Með því að taka upp ° neo náum við næsta skrefi hagræðingar, sem auðveldar lánafyrirkomulagið verulega og mun bæði færa okkur fleiri viðskiptavini og treysta samskiptin enn frekar við þá sem fyrir eru," segir Jeroen Sonsma, forstjóri Swishfund.

Leist best á skýjalausnir Five Degrees

„Við mátum margar skýjalausnir en lausnir Five Dregree komu best út með blöndu af djúpri þekkingu á fjármálageiranum og nýtingu þeirra á skýjatækninni. Að auki reyndist fullkomin menningarleg samsvörun milli þeirra og okkar eigin fyrirtækis: framsýn, óformleg og skjótvirk. Það er ótrúlegt að sjá hvað ° neo vinnur áreynslulaust en það gerir okkur kleift að einbeita okkur að kjarnastarfseminni þar sem við getum veitt mikla og góða upplifun af lánsviðskiptum. Að auki er reynsla okkar af samstarfi við Five Degrees sú að þau eru einstaklega opinn og þægilegur samstarfsaðili sem hefur hlustað á þarfir okkar og viðskiptavina okkar við áframhaldandi þróun kerfisins," segir Jeroen.