Útivistarvöruverslunin Fjallkofinn mun nú í sumar opna nýja verslun í verslunarhúsnæði að Hallarmúla 2. Fjallakofinn leigir húsnæðið, sem er um 1.600 fermetrar, af fasteignafélaginu Reitum. Reitir gengu nýlega frá kaupum á húsnæðinu ásamt umtalsverðum byggingarheimildum.

Fjallakofinn rekur nú þegar tvær verslanir, eina sem er til húsa í Kringlunni 7 og aðra á Laugavegi 11. Ásmundur Þórðarson, markaðsstjóri Fjallakofans, segir að nýja verslunin muni ekki leysa verslunina í Kringlunni af hólmi, heldur hafi stóraukin sala orðið til þess að húsnæðið í Kringlunni var orðið of lítið. Verslunin í Kringlunni muni áfram verða starfrækt og eftir að verslunin í Hallarmúla verður opnuð verði hún með öðru sniði en áður, en framtíðarhlutverk hennar verði tilkynnt síðar. „Fólk getur verið spennt fyrir versluninni í Hallarmúla, þar sem hún verður stærri og flottari en verslunin í Kringlunni. Það mun fara betur um vöruúrvalið okkar í stærri verslun. Stóraukin sala í COVID-19 faraldrinum hefur orðið til þess að við erum búin að sprengja húsnæðið í Kringlunni utan af okkur."

Eigandinn Halldór Hreinsson segir að verslunarrýmið í Hallarmúlanum sé 60% stærra en í Kringlunni, auk þess sem lagerrýmið sé einnig mun stærra. Þá sé aðgengið í Hallarmúlanum betra, fleiri bílastæði og mun auðveldara fyrir viðskiptavini að komast nálægt versluninni þegar þeir eru að ná í vörur. „Verkstæði okkar fyrir skíði, reiðhjól og annan útivistarbúnað mun flytjast í Hallarmúlann, sem er mikil búbót fyrir okkur og gerir okkur kleift að bæta þjónustu okkar við viðskiptavini. Við sjáum opnun nýju verslunarinnar sem tækifæri til þess að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu." Hann segir að stefnt sé á að verslunin í Hallarmúla verði opnuð í lok júní.

Faraldurinn olía á eldinn

Verslun Fjallakofans á Laugavegi var lokað í byrjun faraldursins en hefur opnað á ný. Halldór segir að sú verslun hafi verið mest sótt af erlendum ferðamönnum. Reikna megi með að nýja verslunin í Hallarmúla muni einnig draga að erlenda ferðamenn, þar sem hún sé staðsett við hlið eins stærsta hótels landsins, Hilton Reykjavík Nordica.

Líkt og Ásmundur hefur komið inn á hefur eftirspurn eftir vörum Fjallakofans stóraukist. Hann segir að fljótlega eftir að faraldurinn barst hingað til lands hafi salan farið að aukast verulega, en sprenging í áhuga landans á útivist hafi þó verið hafin áður en faraldurinn skall á. Covid hafi í raun virkað líkt og olía sem hellt er á eld. Eftir að farið hafi að gjósa í Geldingadölum hafi salan svo farið á enn meira flug. „Margir hafa gert sér ferð til okkar til þess að búa sig undir göngu að gosstöðvunum, enda mikilvægt að vera vel búinn fyrir slíka göngu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segir frá fjártæknisókn bankans.
  • Litið á nýjustu vendingar í hópmálsókn hluthafa gamla Landsbankans gegn Björgólfi Thor.
  • Rætt er við nýja fjármálastjóra Malbikstöðvarinnar og Fagverks, m.a. um áhuga hennar á fjallgöngum.
  • Ítarleg úttekt á vexti íslensku kauphallarinnar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um kjör flugliða og sneypuför ASÍ.
  • Óðinn skrifar um sprengiregn, hæstarétt og Play.
  • Misbjartsýnar spár um atvinnuleysi skoðaðar nánar
  • Rætt er við sviðsstjóra nýs eignastýringasviðs Fossa markaða