Íslenskir fjallaleiðsögumenn töpuðu tæplega 146 milljónum króna á síðasta ári, og jókst tapið um liðlega 100 milljónir frá árinu 2016. Tekjur félagsins drógust saman úr um 1,8 milljörðum í rétt rúma 1,7 milljarða en gjöldin jukust um rúmar 9 milljónir króna á milli ára.

Eigið fé félagsins fór úr því að vera jákvætt um 68 milljónir króna árið 2016 í að vera neikvætt um 78 milljónir árið 2017, og handbært fé frá rekstri minnkaði úr tæplega 48 milljónum í 21 milljón á síðasta ári. Veltufjárhlutfallið var á síðasta ári 0,17, en stór hluti af skuldunum er fyrirfram innheimtar tekjur vegna bókaðra ferða.

Arnar Bjarnason, sem tók við stjórn félagsins af Elínu Sigurveigu Sigurðardóttur í lok mars, sat í stjórn félagsins á árunum 2013 og 2014. Hann hefur starfað víða við endurskipulagningu og sameiningar fyrirtækja, þar með talið var hann forstjóri B&L þegar félagið sameinaðist Ingvari Helgasyni og varð að BL.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn hættu við aðild að kaupum á Arcanum

Nú vinnur hann að sameiningu við Arcanum ferðaþjónustu sem fjárfestingarfélagið Eldey, stærsti eigandi Íslenskra fjallaleiðsögumanna, keypti undir lok síðasta sumars. Eldey er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða.

„Eldey stóð eitt að kaupunum en upphaflega stóð til að Íslenskir fjallaleiðsögumenn tækju þar þátt. Nú er verið að klára hluthafasamkomulagið og frágang og verða þessi fyrirtæki rekin saman þegar það hefur verið samþykkt af yfirvöldum. Til að minnka fastan kostnað verður að sameina og hagræða í þessum rekstri,“ segir Arnar.

„Það liggur alveg í augum uppi að síðasta ár var mjög erfitt rekstrarár og erum við að vinna að hagræðingu, sem liggur fyrir að sé framundan hjá flestöllum fyrirtækjum í þessari grein. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt út af launahækkunum. Ferðaþjónustan var ekki alveg að greiða markaðslaun en þurfti svo að hækka þau vegna samkeppni um vinnuafl og svo kom launaskrið ofan á það. Vegna styrkingar krónunnar hefur verðið ekki hækkað hjá okkur í mörg ár, frekar lækkað sem ekki er hægt að standa undir til lengdar.“

Þyrfti meira en tvöfalt hærra verð

Arnar segir fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa verið með of breitt vöruúrval eftir að hafa verið að efla þjónustuna lengi vegna þess að eftirspurnin var svo gríðarlega mikil.

„Á síðasta ári var töluvert af uppsögnum og erum við nú í endurskipulagningar- og sameiningarferli. Ferðaþjónustan er bara í þessu sama æviskeiði og heild- og smásalar og síðar sjávarútvegurinn fóru í gegnum, samþjöppun og hagræðing,“ segir Arnar.

„Svo þegar salan minnkar vegna verðsamkeppni þá elta menn verðið niður á við. Ef við tækjum krónulega framlegð á lykilvörum miðað við árið 2012 þá þyrfti verðlagið að vera 118% hærra í dag, þá með launaþættinum og álagningu virðisaukaskattsins 2016 líka, svo það verður að segjast að verðin eru of lág.“

Arnar segir að ferðamenn vilji fara í styttri ferðir og vísar í að meðallengd gistingar ferðamanna hafi farið úr því að vera um sjö dagar í um þrjár og hálfan dag.

„Lengri ferðirnar, þó að fyrirtækið sé frekar þekkt fyrir þær, eru oft of flóknar og erfiðar, og því munum við reyna að átta okkur á því hvaða þjónustuafurðir eru skilvirkar og ná hagræðingu í öllum þjónustuvörum okkar,“ segir Arnar sem játar því að það þýði að ferðamenn fara styttra út á land.

„Það þýðir því miður að landsbyggðin fær ekki mikið af því, nema svona 100 til 300 kílómetra út frá höfuðborgarsvæðinu í mesta lagi. Þetta er til dæmis jöklaganga,  fjórhjólaferðir, vélsleðaferðir og aðrar styttri ferðir þar sem hægt er að taka fólk í dagstúra og jafnvel kannski tveggja til þriggja tíma ferðir þar sem þá er hægt að fara í margar ferðir á dag.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .