Bandaríski bílarisinn Ford hefur undanfarin misseri verið nokkuð iðinn við að senda frá sér nýjar gerðir samfara hefðbundnum kynslóðabreytingum og andlitslyftingum.

Fyrir skömmu kynnti Ford nýjan blendingsjeppling (crossover) fyrir bílablaðamönnum á Suður- Spáni. Ford Kuga er greinilega ætlað mikilvægt hlutverk við að efla stöðu Ford í Evrópu en til að byrja með birtist hann eingöngu með dísilvél og beinskiptingu.

Enn sem komið er selst sú samsetning lítt í Bandaríkjunum, hvað sem verður. Skemmst er frá því að segja að með bílnum markar Ford sér athyglisverða stöðu á þessum markaði og hljóta að vera nokkrar væntingar til bílsins í Evrópu.

Við fyrstu sýn kann að vera erfitt að sjá hvernig honum verður stillt upp við hlið Escape og Edge jepplinganna hér heima en Kuga kemur ekki í sölu hér á landi fyrr en næsta haust. Ómögulegt er að segja hvað hann mun kosta. Til að staðsetja hann nánar benda talsmenn Ford á Nissan Qashqai og Toyota Rav. Það gefur til kynna að bíllinn verði væntanlega rétt undir fjórum milljónum króna.

Ekki er að efa að samanburðarhópurinn verður stór og samkeppnin hörð. Þegar kemur að útliti minnir Kuga óneitanlega á Chevrolet Captiva sem einkum er auglýstur í sjö manna útfærslu hér á landi.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um bíla sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .