*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 12. júní 2019 19:02

Fjallkonan mætt í miðbæinn

Fjallkonan er nýr og spennandi veitingastaður sem býður upp á girnilega alþjóðlega rétti með íslensku ívafi.

Magdalena A. Torfadóttir
Bergdís Örlygsdóttir er markaðsstjóri og einn af eigendum Fjallkonunnar.
Haraldur Guðjónsson

Veitingastaðurinn Fjallkonan var opnaður á dögunum en þar er boðið upp á alþjóðlega rétti með íslensku ívafi. Staðurinn er á
Ingólfstorgi við Hafnarstræti 1-3, við hliðina á Sæta svíninu.

„Fjallkonan er virkilega skemmtilega hannaður veitingastaður og við erum með einstaklega flott útisvæði og er því tilvalið að kíkja til okkar á sumrin og njóta veðurblíðunnar,“ segir Bergdís Örlygsdóttir, markaðsstjóri og einn af eigendum Fjallkonunnar.

Nafnið Fjallkonan er að sögn Bergdísar innblásið af fyrstu íslensku konunni sem opnaði veitingastað á Íslandi. „Hún hét Kristín Dahlstedt og var mikill frumkvöðull í veitingabransanum."

Bergdís segir að undirbúningurinn hafi í heildina tekið fimm mánuði en nýverið var hrint af stað samfélagsmiðlaherferð þar sem myndir af íslenskum konum voru í fyrirrúmi. Hún bætir við að á efri hæð staðarins sé stórt og flott rými sem er ætlað til að taka á móti stærri hópum.

Steikur, áfengi og íburðarmiklir eftirréttir

Fjallkonan býður upp á rétti af margvíslegum toga. „Við bjóðum upp á alþjóðlega rétti með íslensku ívafi. Til að mynda bjóðum við upp á Peking önd sem  borin er fram með íslenskum pönnukökum,“ segir Bergdís. „Hjá okkur ríkir afslappað andrúmsloft þar sem fólk getur snætt hádegis- eða kvöldverð og svo erum við einnig með bar.“

Hún segir að á barnum sé hægt að panta ýmsa spennandi kokteila en auk þeirra er boðið upp á íslenskan bjór. „Við erum með tilboð á áfengum drykkjum eða „happy hour“ alla daga frá klukkan þrjú til fimm og er því kjörið að líta til okkar á þeim tíma.“

Á matseðlinum eru  réttir á borð við nautalund, humar, lambalærissteikarloku og kjúkling auk fjölbreytts úrvals smakk- og smárétta og grænmetisrétta.Að auki státar staðurinn af fjölbreyttum og íburðarmiklum eftirréttaseðli. „Við bjóðum upp á mikið úrval af eftirréttum til að mynda súkkulaðikökur, ís og við erum einnig með afar glæsilegan eftirrétt sem nefnist Parísarhjólið,“ bætir Bergdís við.

Parísarhjólið er réttur með bollakökum bæði Red velvet og súkkulaðifudgekökum. Einnig eru makkarónur, kókostoppar, brownies bitar, sörur, þristakúlur og snjókúlur. Rétturinn er einstaklega glæsilegur en hann er borinn fram í eftirlíkingu af Parísarhjóli.

Sjá tækifæri í erfiðleikunum

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að það eru blikur á lofti í íslenskri ferðaþjónustu. Nýverið birti Isavia farþega-spá þar sem gert var ráð fyrir 16,5% samdrætti í fjölda erlendra ferðamanna sem kemur hingað til lands á þessu ári. Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að þessi samdráttur kunni að valda erfiðleikum í veitingarekstrinum segist Bergdís vera vongóð.

„Það er náttúrulega búin að vera mikil umræða um erfitt rekstrarumhverfi í þessum bransa en við sjáum samt sem áður mikil tækifæri þrátt fyrir það,“ segir hún.„Við reynum helst að ná til íslenskra viðskiptavina og við lítum björtum augum á sumarið. Þetta verður frábært."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.
  • Karl K. Karlsson og Bakkus ehf. sameinast undir merkjum Kalla K. 
  • Umfjöllun um endurbætt frumkvöðlasetur.
  • Viðal við nýjan upplýsingafulltrúa Seðlabanka Íslands.
  • Úttekt um heildarvirði fyrirtækja sem stunda laxeldi í sjókvíum og afkomu síðasta árs.
  • Rætt er við Maurce van Tilburg, forstjóra kauphallarinnar í Amsterdam.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um skipun Landsréttardómara.
  • Óðinn skrifar um Ragnar Árnason, prófessor.