Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur sektað Össur hf. um 100.000 krónur vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti. Stjórn Fjármálaeftirlitsins komst að þeirri niðurstöðu að Össur hf. hafi brotið af sér þegar félagið tilkynnti ekki til Fjármálaeftirlitsins um viðskipti fjárhagslega tengds aðila innan tilskilinna tímamarka.

Samkvæmt 63. gr. laga um verðbréfaviðskipti ber útgefanda að tilkynna samdægurs um viðskipti innherja og fjárhagslega tengdra aðila til Fjármálaeftirlitsins. Áttu umrædd viðskipti sér stað þann 26. ágúst 2005 en voru ekki tilkynnt eftirlitinu fyrr en 20. september 2005.

Um var að ræða nýtingu fjárhagslega tengds aðila á kauprétti á bréfum í félaginu. Samkvæmt lögum ber fruminnherja að tilkynna útgefanda án tafar hafi hann eða aðili fjárhagslega tengdur honum átt viðskipti með bréf útgefandans. Engin tilkynning barst hins vegar Össuri hf. um nýtingu kaupréttarins, en fram kom í skýringum félagsins að regluvörður þess hafi verið í sambandi við miðlara bankans sem sá um að afhenda þá kaupréttarsamninga sem í gildi voru á umræddum degi, en að honum hefði láðst að láta miðlara bankans vita að umræddur aðili væri fjárhagslega tengdur fruminnherja.

Taldi Fjármálaeftirlitið, með vísan til ummælanna, að sannanleg vitneskja Össurar hf. um viðskiptin hafi verið fyrir hendi og að slík vitneskja, hvernig sem hún væri tilkomin, nægði ein og sér til þess að tilkynningarskylda stofnist á félagið í skilningi laga um verðbréfaviðskipti. Var þessum skilningi Fjármálaeftirlitsins ekki mótmælt. Með vísan til framangreinds var talið óumdeilt að Össur hf. hafi ekki tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins um fyrrgreind viðskipti innan tilskilinna tímamarka.