Aðstandendur Íslandsbankaútboðsins höfðu allar nauðsynlegar og viðeigandi upplýsingar um þann vísi að eftirspurn sem þeir stóðu frammi fyrir þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin að sögn STJ Advisors, óháðs fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar í söluferlinu.

„Það er okkar faglega mat að 117 króna lokaverðið á hlut hafi verið best til þess fallið að ná yfirlýstum markmiðum með sölunni, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna á þeim tíma og þess síbreytilega ferlis sem útboð með tilboðsfyrirkomulagi felur í sér,“ segir í útdrætti kynningar sem fulltrúar STJ héldu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á mánudag auk þess að sitja fyrir svörum.

Fjölmargir kallaðir á lokaða fundi nefndarinnar

Fjölmargir sérfræðingar og gestir hafa verið kallaðir á lokaða fundi nefndarinnar, en efni þeirra er trúnaðarmál.

Þeim til viðbótar var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaður á opinn fund hjá nefndinni í síðustu viku, og í gærmorgun var svo haldinn annar slíkur þar sem þær Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sátu fyrir svörum.

Nokkra athygli vakti hversu lítið nefndarmenn véku að eiginlegri faglegri framkvæmd sölunnar í spurningum sínum til forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, sér í lagi á fundinum í gær.

Viðskiptablaðið hefur einnig heimildir fyrir því að tónninn í þeim efnum hafi linast nokkuð á lokuðum fundum nefndarinnar með sérfræðingum frá því sem heyra hafi mátt í umræðunni fyrst eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt, þótt sérfræðingar þeir sem fyrir nefndina hafi komið hafi síður en svo verið á einu máli um hversu vel hafi til tekist.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.