Landsbankinn á mikið undir því að Og Vodafone og Norðurljósum vegni vel í framtíðinni því að bankinn kemur að félögunum á margvíslegan hátt eins og rakið er í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Landsbankinn er viðskiptabanki beggja félaga og fjármagnar því skuldir þeirra samtals að upphæð 11 milljarða. Þegar einnig er horft til hlutabréfaeignar í félögunum kemur í ljós að bankinn á í kringum 19 milljarða undirliggjandi á sameinuðu fyrirtæki en til samanburðar er markaðsvirði þess einungis tæpir 16 milljarðar.

Hömlur, sem eru að fullu í eigu Landsbankans eiga 6,9% í Norðurljósum og Landsbankinn á 6,2% í Og Vodafone en 1,5% til viðbótar í framvirkum samningum. Landsbankinn seldi nýlega Riko Corporation 7% hlut í Og Vodafone og er hann í vörslu Landsbankans í Lúxemborg. En það sem skiptir þó mestu er að bankinn fjármagnaði kaup Norðurljósa á 35% hlutnum í Og Vodafone að upphæð fimm milljarða en þau kaup voru upphafið að kaupum Og Vodafone á Norðurljósum. Landsbankinn tók við fjármögnun Norðurljósa á síðasta ári en vaxtaberandi skuldir Norðurljósa voru lækkaðar um hátt í þrjá milljarða í kjölfar mikilla greiðsluerfiðleika.

Bankinn á í kringum 19 milljarða undirliggjandi á sameinuðu fyrirtæki en til samanburðar er markaðsvirði þess einungis tæpir 16 milljarðar. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sá einnig um verðmat á Norðurljósum. Eignarhlutar bankans í báðum félögum hafa verið hálfgerð vandræðabörn en nú á fyrirtækið í félagi sem mun auðveldara er að koma í verð.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.