Íbúar Fjarðabyggðar voru þeir launahæstu á landinu á síðasta ári samkvæmt tölum frá Ríkisskattstjóra. Við­skiptablaðið gerði úttekt á tekjum og eignum íbúa 10 stærstu sveitarfélaga landsins auk Seltjarnarness, Vestmannaeyja, Ísafjarðarbæjar og Fljótsdalshéraðs.

Meðallaun í Fjarðabyggð voru tæplega 547 þúsund krónur á mann og var um að ræða 35,5% raunhækkun frá aldamótum, en 2.552 launþegar voru skráðir á svæðinu. Meðal helstu vinnuveitenda sveitarfélagsins eru álver Alcoa á Reyðarfirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað, Loðnuvinnslan á Fá­skrúðsfirði og Eskja á Eskifirði. Þess má geta að í tölunum er einnig tekið tillit til fólks í hlutastarfi og má því gera ráð fyrir að laun fólks í fullu starfi séu að meðaltali eitthvað hærri.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir mikinn stíganda hafa verið í samfélaginu undanfarin ár. Hann segir að sterk staða sjávarútvegs hafi gegnt stóru hlutverki og sömuleið­ is hafi miklar framkvæmdir átt sér stað. Uppgangurinn hafi verið mikill frá hruni og því sé fyrst og fremst að þakka sterkum útflutningsgreinum.

„Þetta er í raun ekkert flóknara en það. Þjónustufyrirtæki á svæð­ inu hafa einnig verið að eflast, ferðamennskan hefur aukist og það er mjög mikið að gera hérna,“ segir Páll Björgvin. Hann segist ekki sjá fyrir endann á uppganginum en viðurkennir hins vegar að ákveðnar blikur séu á lofti.

„Við erum að horfa fram á mjög litla loðnuveiði í vetur og þá hefur gengið styrkst. Þetta þýðir minni tekjur í samfélaginu og ég hef smá áhyggjur af því,“ segir Páll. Gengisstyrkingin komi sér hins vegar vel að öðru leyti, þar sem innkaup verða ódýrari vegna minni verðbólgu.

Eignarstaða íbúa Fjarðabyggð­ ar hefur styrkst töluvert frá árinu 2000, eða um tæp 40% að raunvirði. Páll segir að eftirspurn eftir fasteignum á svæðinu hafi aukist umtalsvert undanfarin ár, sérstaklega á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Það skýri hækkunina að einhverju leyti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .