Stjórnendur Fjarðalax og bæjaryfirvöld Vesturbyggðar komust að samkomulagi í dag sem felur í sér að uppsagnir fjórtán starfsmanna fyrirtækisins, sem starfa við vinnslu og pökkun á Patreksfirði, verða dregnar til baka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Í henni er haft eftir Einari Erni Ólafssyni framkævmdastjóra Fjarðarlax að félagið hyggist með þessari ákvörðun leita leiða með Vesturbyggð og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu til þess að finna lausn sem tryggir varanlega vinnslu afurða félagsins á atvinnusvæðinu.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, fagnar þessu samkomulagi enda hafi uppsagnirnar komið verulega á óvart og verið mikið reiðarslag fyrir bæjarfélagið og viðkomandi starfsfólk, hefðu þær komið til framkvæmda.