Fjarðarkaup ehf. hagnaðist um 74,2 milljónir króna árið 2016 borið saman við 68,4 milljónir árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Félagið rekur eina verslun í Hólshrauni í Hafnarfirði.

Rekstrartekjur Fjarðarkaups námu rúmlega 3.006 milljónum króna og voru rekstrargjöld 2.924 milljónir. Rekstrarhagnaður Fjarðarkaups nam 89,2 milljón króna borið saman við 82,5 milljónir árið áður. Var reksturinn því stöðugur milli ára. Á árinu 2016 voru 161 starfsmaður á launaskrá hjá félaginu og námu launagreiðslur 292,5 milljónum.

Eignir Fjarðarkaups námu 714,5 milljónum í lok árs 2016 borið saman við 620,1 milljón árið áður. Jókst bókfært virði bifreiða og lyftara milli ára, sem og birgða. Þá jókst einnig handbært fé félagsins. Skuldir námu 411,2 milljónum borið saman við rúmlega 391 milljónir í árslok 2015. Eigið fé félagsins nam 303,3 milljónum en var 229,1 milljón árið áður.

Handbært fé frá rekstri Fjarðarkaups nam 32,6 milljónum í fyrra en var neikvætt um 52,6 milljónir árið áður. Seldi félagið eignir fyrir 6,5 milljónir en keypti eignir fyrir 19,7 milljónir. Handbært fé Fjarðarkaups hækkaði um 19,4 milljónir árið 2016 en lækkaði um 52,6 milljónir árið 2016.

Fjarðarkaup er í eigu 1717 ehf. (98%), Sveins Sigurbergssonar verslunarstjóra (1%) og Gísla Þórs Sigurbergssonar verðlagsstjóra (1%). Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður vegna ársins 2016.