Fjarðalax á Vestfjörðum neyðist til þess að segja upp fjórtán starfsmönnum fyrirtækisins vegna tímabundinnar óvissu um framtíðarhúsnæði þess. Umsvif fyrirtækisins hafa aukist svo mikið að vinnsluhús þess á Patreksfirði mun ekki anna því magni sem fyrirhugað er að slátra frá og með næsta hausti. Því verður að grípa til nauðsynlegra ráðstafana og flytja vinnsluna í stærra húsnæði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjarðalaxi.

Í henni segir að vonir standi til þess að hægt verði að bjóða starfsmönnunum ný störf um leið og ljóst verður hvar starfsemin verður. Þess er vænst að það skýrist á næstu vikum.

Umfangið vex hratt

Starfsemi í kringum laxeldisstöðvar Fjarðalax verður áfram á Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Í apríl mun Fjarðalax taka í notkun nýtt skip sem notað er við vinnsluna og búið að ráða starfsmenn á það. Samhliða er verið að ganga frá samningum við þriðja aðila um þjónustu á kvíum sem mun hefja starfsemi á Vestfjörðum á næstunni. Það mun auka enn við þann mannskap og skipakost sem starfar við eldi félagsins á svæðinu.

Útlit er fyrir að umfang laxeldis á Vestfjörðum vaxi hröðum skrefum á næstu árum innan vébanda nokkurra laxeldisfyrirtækja á svæðinu.  Þessi fyrirséði vöxtur er forsenda þess að framleiðslukostnaður hérlendis verði sambærilegur við það sem samkeppnisþjóðir okkar búa almennt við.  Það er skoðun forsvarsmanna Fjarðalax að kostnaðarhagræði verði best og fyrst náð með því að aðilar sameinist um slátrun og vinnslu.  Eftir því verður leitað af hálfu Fjarðalax í tengslum við flutning á vinnslu félagsins.