Þriðja árið í röð er sjávarútvegsfyrirtækið Samherji efst á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki. Rekstur félagsins byggir á sjófrystingu, landvinnslu á bolfiski, fiskeldi og markaðs- og sölustarfsemi. Tæknilega séð væri réttast að kalla Samherja eignarhaldsfélag en árið 2012 var móðurfélag Samherja skipt upp í tvö félög. Annars vegar rekstrarfélag um veiðar og vinnslu á Íslandi, þ.e. Samherji Ísland ehf., og hins vegar eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum samstæðunnar, Samherja hf. sem trónir á toppi listans.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf, segir að margt sé á döfinni hjá fyrirtækinu. Nú séu Samherji og tengd fyrirtæki með sjö skip í smíðum. „Við vorum einnig að ljúka nýbyggingu á vinnsluhúsnæði ÚA á Akureyri og samtals eru þetta fjárfestingar að andvirði um 30 milljarða króna. Það eru því umtalsverðar fjárfestingar hjá félögunum,“ segir Þorsteinn. Hann segir sjávarútveginn búa við ásættanleg skilyrði og mikilvægt sé að auka ekki við óvissuna.

„Við munum halda áfram að fjárfesta í fiskvinnslu og það er okkar mat að nú sé komið tækifæri fyrir nýja kynslóð fiskvinnsluhúsa. Þessi hús munu byggja á íslensku hugviti og þróun sem hefur orðið til í samstarfi milli sjávarútvegsins, iðnaðarins og tæknifyrirtækja undanfarna áratugi. Við ætlum okkur að vera framarlega í þeirri framþróun,“ segir Þorsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Framúrskarandi fyrirtækjum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .