Fjárfesting í geimfyrirtækjum náði methæðum árið 2021, samkvæmt skýrslu frá fjárfestingafélaginu Space Capital. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC.

Geimfyrirtæki tryggðu sér fjármögnun upp á samtals 14,5 milljarða dala á síðasta ári, eða um 1.855 milljarða króna. Þetta er 50% aukning frá árinu 2020 þegar fjárfestingin nam 9,8 milljörðum dala. Þar af nam fjárfestingin 4,3 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi.

Meðal fjárfestinga var 337 milljóna dala fjármögnun SpaceX, geimfyrirtækis Elon Musk, og 1,4 milljarða dala fjármögnun geimfyrirtækisins Sierra Space.

Skýrsla Space Capital tekur til tæplega 1.700 geimfyrirtækja sem hafa samtals tryggt sér 253 milljarða dala fjármögnun frá árinu 2012.