Af 17 milljörðum sem farið hafa í nýsköpunarverkefni á Íslandi á árinu hafa 12 milljarðar, eða 74%, komið frá öðrum löndum að því er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála segir frá í pistli í Morgunblaðinu .

Upphæðin sé þar með orðin meiri en allt árið 2019, en þó segir hún að um færri verkefni sé að ræða í ár en í fyrra, sem hún segir vísbendingu um að nýsköpunin sé komin yfir fyrstu stigin í vaxtaferlinu.

Sem dæmi um fyrirtæki sem hún nefnir að hafi sótt erlendar fjárfestingar á árinu eru Sidekicick Health , sem fékk þrjá milljarða, Controlant sem fékk tvo milljarða og Dohop sem fékk á annan milljarð .

Auk þess hafi yfir þrír milljarðar í  evrópskum þróunarstyrkjum runnið til íslenskra fyrirtækja, þar af 2,5 milljarðar til Svefnbyltingarinnar , 400 milljónir til Orf líftækni og loks 300 milljónir til Greenvolt, sem þrói rafhlöður með nanótækni.

Í fyrra hafi hins vegar 1,5 milljarðar runnið til íslenskra nýsköpunarfyrirtækja frá evrópskum þróunarstyrkjum, þar á meðal til EpiEnda, Oz, SagaNatura, Kerecis og Curio.