Auðjöfurinn og fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur sýnt fjármálafyrirtækjum talsverðan áhuga síðustu misseri. Á þriðjudag var tilkynnt um tugmilljarða króna fjárfestingu sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Aurora, sem félag Björgólfs Novator leiðir, í bandaríska húsnæðislánafyrirtækinu Better Mortgage. Better bætist þar með í hóp Stripe og Monzo, fjármálafyrirtækja sem Björgólfur fjárfesti í á síðasta og þarsíðasta ári.

Novator tók þátt í 250 milljóna dala hlutafjáraukningu bandaríska greiðslumiðlunarfyrirtækisins Stripe í september 2019. Hlutdeild Novator var trúnaðarmál, en heildarverðmat félagsins í útboðinu var 35 milljarðar dala, hátt í 4.400 milljarðar króna. Stripe stundar aðallega greiðslumiðlun í rafrænum viðskiptum.

Breski bankinn Monzo er svokallaður áskorendabanki (e. challenger bank), með tæpar 5 milljónir viðskiptavina í lok síðasta árs þegar Novator fjárfesti í honum, og verðmat upp á 1,2 milljarða sterlingspunda, eða 210 milljarða króna. Fjárfesting Novator í Monzo hljóðaði upp á um 7 milljarða króna.

Stærsta fjárfesting vestanhafs lengi
Þótt upphæð fjárfestingarinnar í Stripe sé trúnaðarmál, hefði Novator þurft að standa nánast eitt undir hlutafjáraukningu félagsins til að sú fjárfesting næði sömu fjárhæð og félagið mun setja í Better: 200 milljónir dala eða um 25 milljarða króna. Eftir því sem blaðamaður kemst næst er þar um að ræða stærstu fjárfestingu Íslendings í Bandaríkjunum í langan tíma.

Better – sem Sigurgeir Jónsson, frændi Björgólfs, tók þátt í að stofna og situr í framkvæmdastjórn hjá – hefur vaxið ævintýralega síðustu ár og lánaði ríflega 24 milljarða dala eða 3 þúsund milljarða króna í fyrra. Í fjárfestakynningu vegna viðskiptanna eru sett fram sex þjónustustig sem Better hafi lagt upp með að ná. Fyrstu fjögur sem snúa að fjármögnun, fasteignamiðlun, afsali og húseigendatryggingu, en þeim hefur öllum verið komið á laggirnar og því hægt að fá alla þá þjónustu hjá félaginu.

Það tvennt sem eftir stendur er ýmiss konar þjónusta við húseigendur og endurbótalán annars vegar – sem til stendur að bjóða upp á á síðari hluta þessa árs – og svo víðtæk fjármálaþjónusta á flestum sviðum, á borð við kreditkort, neytenda-, bíla- og námslán og líf- og sjúkratryggingar, sem stefnt er að því að bjóða upp á á fyrri helming næsta árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .