Framkvæmdir eru hafnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem miða að því að auka afköst í stöðinni og stytta biðtíma við afgreiðslu flugfarþega meðal annars með fjölgun sjálfsinnritunarstöðva, fjölgun brottfararhliða, fjölgun landamærabásum og með nýjum biðsvæðum. Nokkur fjárfesting verður einnig vegna sjálfs flugvallarins og er gert ráð fyrir að framkvæmdir á þessu ári og því næsta kosti um þrjá milljarða króna, að því er segir á heimasíðu stjórnarráðsins.

Þar er haft eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, að síðasta ár hafi verið metár í umferð og rekstri Keflavíkurflugvallar. Liðlega 2,3 milljónir farþega fóru um völlinn á síðasta ári sem er 12,7% aukning frá 2011. Þá sé gert ráð fyrir um 10% fjölgun í sumaráætlun flugfélaganna í ár, en 17 félög munu annast áætlunar- og leiguflug um Keflavíkurflugvöll í sumar.

Gert er ráð fyrir að afgreiða 32 komur og brottfarir flugvéla um háannatíma að morgni og annan eins fjölda síðdegis flesta daga vikunnar. Þessu til viðbótar koma vélar sem afgreiddar eru um hádegi og kringum miðnættið. Þegar mest er um að vera í júní, júlí og ágúst fara um 15.500 manns um Leifsstöð á dag. Björn segir að með þessum endurbótum sé í raun aðeins verið að kaupa frið til skamms tíma því eftir sem áður sé nauðsynlegt að stækka flugstöðina á allra næstu árum. Alls verður fjárfest fyrir um 1,4 milljarða króna í flugstöðinni og um nálega 1,3 milljarða vegna verkefna við flugvöllinn og þjónustu við flugvélar og dreifist þessi fjárfesting á tvö ár.