Fjárfestingafélagið Digital 9 Infrastructure (D9) hyggst fjárfesta 93 milljónum dala, eða sem nemur 12 milljörðum króna, í gagnaversfyrirtækinu Verne Global á næstu tólf mánuðum. D9, sem keypti Verne í lok sumars, hyggst með þessu fjármagna stækkun á gagnaverinu sem mun auka afkastagetu þess um 20,7 megavött.

Í tilkynningu D9 segir að fjárfestingin feli í sér nýjan 8,2 megavatta gagnasal (e. data hall) ásamt því að 12,5 megavött verður beint úr annarri notkun í stórnotendaþjónustu. Verne hefur gefið það út að fyrirtækið ætli að hætta starfsemi á rafmyntamarkaði á næstu mánuðum og breyta á rými, sem hefur verið tileinkað rafmyntagreftri, til að styðja við þjónusta til stórnotenda.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir að nýi gagnasalurinn muni byrja að skila af sér tekjum á þriðja fjórðingi ársins. Þá verði framkvæmdunum sem um ræðir lokið á fyrsta ársfjórðungi 2023. Í kjölfar framkvæmdanna verður afkastageta gagnaversins í Ásbrú í Keflavík tæplega 40 megavött.

Um er að ræða stærri fjárfestingu en Verne tilkynnti um í nóvember. Þá var greint frá því að til stæði að fjárfesta 50 milljónum dollara, um 6,6 milljörðum króna, í stækkun gagnaversins. Sú framkvæmd fellur undir fjárfestinguna sem tilkynnt var í morgun, samkvæmt svari Verne við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Sjá einnig: Kaupa Verne Global fyrir 40 milljarða

D9 keypti Verne fyrir 40,7 milljarða króna í lok sumars en meðal fyrri hluthafa voru Stefnir og Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar. Félag sem hélt utan um hluta af eignarhlut Novator og tengdra aðila í Verne greiddi út 3,25 milljarða króna með lækkun hlutafjár eftir söluna.

D9, sem er í stýringu hjá Tirple Point Investment Management, hefur safnað 750 milljónum punda, eða um 132 milljörðum króna. Þar af sótti félagið sér 400 milljónir punda í frumútboði í mars 2021. Fjárfestingafélagið hefur hækkað um 10% frá skráningu í London Kauphöllina fyrir rúmum níu mánuðum síðan.

Ásamt Verne hefur D9 fjárfest í gagnaversfyrirtækinu SeaEdge UK1 og Aqua Comms, sem á og rekur sæstrengi.