Áformað er að reisa allt að 210 herbergja hótel í Stóradal og 8.500 fermetra baðlón ásamt baðhúsi en gamli skíðaskálinn í Hveradölum verður endurbættur, skíðalyfturnar settar upp á ný og gróðurhús byggt við skálann.

Þetta er meðal þess sem eigendur Hveradala ehf. stefna að en samkvæmt nýauglýstu deiliskipulagi Sveitarfélagsins Ölfus verður lóð Skíðaskálans stækkuð í 46 hektara.

Hótelið innar á svæðinu

Að félaginu stendur ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line ásamt Gretti Rúnarssyni hjá Heklubyggð ehf., sem er frumkvöðull verkefnisins að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins.

Uppbyggingarsvæðið í Stóradal er nokkru innar á svæðinu, en hóteliðbyggingin verður allt að 9 þúsund fermetrar að stærð.

Samkvæmt áætlunum kostar verkefnið í heild 5-6 milljarða króna og er reiknað með að störf skapist fyrir um 250 manns þegar starfsemin verður komin á fullt.

Telur Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line og framkvæmdastjóri Hveradala ehf. sem að verkefninu standa, að framkvæmdir geti hafist í vor.