Sláturfélag Suðurlands (SS) stefnir á að fjárfesta fyrir um 300 milljónir króna á Suðurlandi á árinu. Fyrirtækið ætlar að endurnýja afurðastöðina á Selfossi og byggja við hana auk þess að reisa 1.500 fermetra skemmu í Þorlákshöfn.

Fram kemur í tilkynningu frá SS að fyrirtækið er stærsti atvinnurekandi Suðurlands og skapar þar hátt í 400 störf með dótturfélagi sínu Reykjagarði.

Þá segir í tilkynningunni að Reykjagarður, dótturfélag SS, muni sömuleiðis fjárfesta umtalsvert á árinu í endurnýjun og viðhaldi fasteigna.

Í tilkynningu SS segir að hluti af efnahagsvanda Íslendinga sé að fjárfestingar eru í lágmarki þrátt fyrir að bankar og lífeyrissjóðir séu með mikið af lausafé sem ber litla ávöxtun. „Það er mjög líklegt að það myndi skila miklu ávinningi fyrir þjóðfélagið ef fyrirtækjum sem fjárfestu umfram tiltekið mark næstu 3-4 árin stæði til boða flýtifyrning á þeim fjárfestingum. Það væri hvati fyrir fyrirtæki með góðan rekstur að auka fjárfestingar sem allir myndu njóta,“ segir í tilkynningunni.