Advania Data Center byggir gagnaver í Stokkhólmi sem nýtir varmann til húshitunar í borginni. Raforkuverðið í Svíþjóð er lægra en félaginu býðst á Íslandi. Að teknu tilliti til sölu á varmanum fæst að 40% hagkvæmari rekstur háhraða gagnavers. Gagnaverið þjónar fyrirtækjum sem þurfa örugga og mikla gagnanotkun með litlum fyrirvara.

Íslenska gagnaversfyrirtæki Advania Data Centers hefur samið við hitaveitu Stokkhólmsborgar í Svíþjóð um uppbyggingu á gagnaveri á landi í eigu veitunnar. Í staðinn kaupir hitaveitan varmann sem tölvubúnaður gagnaversins myndar. Samanlagt nemur fjárfestingin 8,6 milljörðum króna. Hönnun og undirbúningur að byggingunni er þegar hafin, en um er að ræða fyrsta gagnaver fyrirtækisins á erlendri grundu. Stefnt er að því að fjárfesting í fyrsta áfanga af sjö, nemi 15 milljónum dala, eða tæplega 2 milljörðum króna. Áfanginn á að vera tilbúinn og settur í gang strax í lok næst árs.

Eyjólfur Magnús Kristinsson forstjóri ADC segir erfitt að segja hvenær heildarfjárfestingin klárist en hann sér fyrir sér að það verði á bilinu þrjú til sex ár. „Í heildina erum við að fara að reisa húsnæði þarna sem er um 6 þúsund fermetrar að stærð. Jafnframt erum við að fara að setja upp mjög flókinn búnað, því fyrir utan hefðbundinn gagnaversbúnað sem er gríðarlega dýr, erum við að fara að nýta heita loftið til að hita vatn sem notað verður til húshitunar í Stokkhólmi,“ segir Eyjólfur Magnús.

Erfitt að keppa við vatn úr jörðu

Hann segist sjá fyrir sér frekari uppbyggingu hjá félaginu á Norðurlöndum, enda séu gagnatengingar þar góðar og orkan bjóðist á samkeppnishæfu verði. „Það er orðið mjög lítið eftir af raforku á Íslandi og eru gagnaverin að borga langhæstu verðin af stórnotendum hér á landi.“ Hann segir að því miður nýtist þó ekki hitinn sem fellur til að sama skapi hér á landi, sem gæti gert reksturinn hagkvæmari og dregið úr sóun.

„Það er erfitt að keppa við það að heita vatnið vellur bara upp úr jörðinni, en við erum mjög áhugasamir um að finna leiðir til að nýta varmann betur hér á landi.“ Hann bætir við að mikill áhugi sé á þessari lausn erlendis.

„Það hefur verið gagnrýnt bæði hér heima og erlendis hvað gagnaver eyða mikilli orku, en við finnum áhuga fyrir því að við séum að nýta okkur orkusparandi tækni. Við getum gert mikið úr því gagnvart viðskiptavinum okkar að við séum að fullnýta orkuna. Jafnframt erum við að fá raforkuna um 20% ódýrari í Svíþjóð en hérna heima. Þar til viðbótar erum við að selja hitann svo þegar það bætist í reikninginn verður raforkan miklu ódýrari eða um 40% en hér. Þetta er alls ekki áfellisdómur yfir gagnaversiðnaðinum hér á Íslandi, heldur erum við að tryggja að við getum veitt viðskiptavinum okkur örugga þjónustu sem veltir ekki einungis á gagnatengingum við eitt land.“

Með nýja verinu hyggst félagið bjóða upp á aukið rekstraröryggi fyrir viðskiptavini sína með því að geta hýst þjónustuna í tveimur hátæknigagnaverum í aðskildum löndum. Viðskiptavinir félagsins eru ýmis alþjóðleg stórfyrirtæki og stofnanir sem starfa meðal annars við rannsóknir, þá til að mynda í heilbrigðisgeiranum, gagnagreiningum, gervigreind, framleiðsluiðnaði og veðurfræði, sem kallar á sífellt aukna reiknigetu.

Skýjalausn fyrir mikið reikniafl

„Við bjóðum upp á tvær grunnvörur. Annars vegar erum við með hefðbundin gagnaver sem hýsa búnað í eigu annara. Síðan erum við með tilbúinn búnað sem viðskiptavinir geta tengt sig inn á, alveg eins og í hefðbundnum skýjalausnum. Nema hér erum við að tala um HPC, sem stendur fyrir mjög mikið háhraðareikniafl, sem hægt er að kalla til með tiltölulega litlum fyrirvara. Viðskiptavinirnir nota þetta oft í alls konar hönnunarvinnu, straumfræðiútreikningum, gervigreind og svo framvegis, en varan okkar heitir HPC Flow.“

Félagið rekur nú þegar tvö gagnaver á Íslandi, annars vegar hátækniver í Hafnarfirði, og síðan eitt stærsta gagnaver Evrópu sem rekið er að Fitjum í Reykjanesbæ. Auk höfuðstöðva félagsins í Steinhellu í Hafnarfirði, er fyrirtækið nú þegar með starfsemi í Svíþjóð, Hollandi, Belgíu og Bretlandi. Eigendahópurinn er nokkurn vegin sá sami og systurfélagsins Advania. Nýja gagnaverið verður reist á landi í eigu Stokkhólmsborgar, í hverfinu Kista, sem sagt er vera einn stærsti hátæknigarður heims utan Sílikondalsins í Kaliforníu og með sterka tæknilega innviði. Orkan er keypt af Stockholm Exergi, hitaveitu borgarinnar.

Eyjólfur Magnús Kristinsson og Anders Egelrud
Eyjólfur Magnús Kristinsson og Anders Egelrud
© Aðsend mynd (AÐSEND)