Rússnesk stjórnvöld hyggjast nota hluta af olíugróða sínum til að fjárfesta fyrir milljarða Bandaríkjdala á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þetta er í fyrsta sinn sem ákveðið er að ráðast í slíkar fjárfestingar með olíusjóðinn og ljóst að þetta mun auka verulega vægi og áhrif Rússa í alþjóðlegu fjármálalífi.

Fjármálaráðherra Rússlands, Alexei Kudrin, er sagður hafa verið upphafsmaður þessarar hugmyndar. Olíugróði landsins hefur fram að þessu verið settur í svokallaðan "stöðugleikasjóð" sem var stofnaður árið 2004, en hlutverk hans er að verja rússneska hagkerfið fyrir niðursveiflum í efnahagslífinu á borð við það ef orkuverð á heimsmarkaði myndi lækka verulega. Í dag stendur sjóðurinn í 108 milljörðum dollara.

Stjórnvöld munu viðhalda sérstökum varasjóði sem verður 10% af heildarþjóðarframleiðslu Rússlands, en það ætti að vera nógu mikið til að greiða fyrir ríkisútgjöld í þrjú ár þrátt fyrir að tekjur ríkisins af olíugróðanum myndu dragast saman um helming.

Um er að ræða tvo sjóði sem Rússar ætla að fjárfesta fyrir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum; annars vegar 142 milljarða dollara sjóður sem mun fjárfesta í áhættulitlum ríkisskuldabréfum og hins vegar 24 milljarða dollara sjóður sem á að fjárfesta í áhættusamari verðbréfum sem eru líklegri til að skila hærri ávöxtun til lengri tíma. Það er sennilegt að sjóðirnir muni stækka á næstu árum ef orkuverð helst áfram hátt á heimsmarkaði. Í samtali við Financial Times gaf Kudrin það í skyn að leitað yrði til rússneskra eða vestrænna sjóðsstjóra til að stýra hinum nýja fjárfestingarsjóði.

Þessi áætlun stjórnvalda í Kreml endurspeglar þann viðsnúning sem hefur orðið á ríkisfjármálum landsins frá því að fjármálakreppa reið yfir Rússland árið 1998. Fyrir utan þá miklu fjármuni sem rússneska ríkið hefur sankað að sér vegna olíugróðans þá hefur það einnig byggt upp þriðja stærsta gull- og gjaldeyrisvaraforða í heiminum, sem er metinn á 356 milljarða dollara.

Ákvörðunin um að skipta upp olíusjóðinum var samþykkt af rússneska þinginu í síðustu viku í kjölfar þess að Vladímír Pútín forseti féllst á tillöguna.