Þrjú dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur hyggjast fjárfesta fyrir tæpa níu milljarða króna á árinu 2015, en greint er frá þessu á vefsíðu fyrirtækisins .

Stærsta einstaka verkefnið er lagning Hverahlíðalagnar á vegum Orku náttúrunnar. Það er þegar hafið og í því felst lagning gufulagna frá borholum við Hverahlíð á Hellisheiði að Hellisheiðarvirkjun. Um 2,5 milljarður renna til þess verkefnis. Fjárfesting alls er áætluð 3.877 mkr.

Þá munu 650 milljónir króna fara í uppbyggingu nýrrar fráveitu á Vesturlandi, en OR-Veitur standa fyrir því verkefni. Þá stendur til endurnýjun Reykjaæða sem flytja hitaveituvatn til höfuðborgarinnar úr Mosfellsbæ. Endurnýjað verður sitt hvoru megin Elliðaánna nú í ár og mun það kosta hátt í 400 milljónir. Fjárfesting alls er áætluð 4.650 mkr.

Gagnaveita Reykjavíkur hyggst svo verja 400 milljónum króna til frekari útbreiðslu ljósleiðarakerfis, en fyrirtækið er nú á lokametrunum við að ljúka uppbyggingu þess í Reykjavík.