Samskip hafa keypt bíla og margvísleg tæki fyrir um 150 milljónir króna á síðustu mánuðum fyrir Landflutninga. Frekari bíla- og tækjakaup eru framundan og er áætlað að þau kaup  nemi um 350 milljónum króna. Endurnýjaður og öflugri floti fyrirtækisins verður umhverfisvænni en áður og mun auðvelda Landflutningum að viðhalda og efla þjónustustigið. Fjárfest verður  í tækjum og bifreiðum á öllum sviðum og þjónustustöðvum félagsins.

Gísli Þór Arnarson framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa fagnar þessari fjárfestingu. „Við erum að efla flotann okkar og uppfæra enn frekar þá þjónustu sem við bjóðum viðskiptavinum. Á sama tíma er hluti af þessari miklu fjárfestingu eðlilegt viðhald og endurnýjun.“