Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur ásamt bandarískum fjárfestingarsjóði fjárfest í fyrirtækinu Gangverki.  Gangverk er hugbúnaðarfyrirtæki og hjá því vinna 10 manns á sviði hugbúnaðarþróunar og viðmótsþróunar. Fyrirtækið vinnur nú að því að þróa nýja hugbúnaðarlausn fyrir fyrirtæki í þjónustugeiranum sem er með fólk í vaktavinnu.

Nýir fjárfestar munu styðja við gerð og markaðssetningu lausnarinnar. Gangverk hefur þróað stafrænar vörur fyrir ýmis fyrirtæki t.d. CBS Media í Bandaríkjunum, Símann, 365, Last.fm ofl.bæði á Íslandi og erlendis.

Fyrstu skrefin að kaupum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og bandarískra tæknifjárfesta á hlut í Gangverki voru stigin fyrir um hálfu ári, en hins vegar verður ekki gefið upp að sinni hversu háa upphæð fjárfestarnir leggja til fyrirtækisins.

Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir aðkomu sjóðsins að fjárfestingunni í Gangverki spennandi enda muni varan leysa ákveðinn vanda sem mörg þjónustufyrirtæki standa frammi fyrir. Þá hafi sjóðurinn góða reynslu af fyrra samstarfi við Atla Þorbjörnsson sem var einn af stofnendum og hugmyndasmiðum fargjaldavefsins DoHop en Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er jafnframt einn hluthafa hans. „Það er líka gaman að fara inn í fjárfestinguna með bandarískum fjárfesti, sér í lagi þar sem markaðssetning mun að mestu fara fram vestanhafs,“ segir Helga.