Framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund hefur fjárfest í ísgöngum í Langjökli. Hann hefur nú þegar fjárfest í tveimur en stefnan er að fjárfesta í fimm til tíu verkefnum..Fjárfestingargeta sjóðsins nemur 2,1 milljarði króna. Að sjóðnum koma m.a. Icelandair Group, Landsbankinn, nokkrir lífeyrissjóðir auk einstaklinga.

Helgi Júlíusson sjóðsstjóri segir í samtali við Fréttablaðið í dag sjóðinn nýmæli hér á landi enda fjárfesti hann eingöngu í afþreyingatengdri ferðaþjónustu og er áherslan á að stuðla að betri nýtingu á innviðum ferðaþjónustu yfir vetrartímann. Sjóðurinn mun setja allt að 20% af fé sínu í einstök verkefni.

Viðskiptablaðið greindi frá því í júlí að sjóðurinn hafi keytp jörðina Ingólfshvol í Ölfusi. Þar er fyrirhugað að halda reglulegar hestasýningar, byggja þar upp veitingaþjónustu, minjagripasölu og ýmiskonar afþreyingu fyrir ferðamenn. Guðmundur Ólason, kenndur við Milestone, er einn þeirra sem koma að sjóðnum og er hann framkvæmdastjóri verkefnisins að Ingólfshvoli.