Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fjárfest fyrir 65 milljónir króna í hugbúnaðarfyrirtækinu PayAnalytics. Fyrirtækið býður hugbúnaðarlausn sem mælir og leggur til breytingar til að útrýma launabili starfsmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu um málið.

Lausnin, sem keyrð er í skýi, er nú þegar notuð af rúmlega 50 fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem samanlagt eru með yfir 30.000 starfsmenn, eða um 14% af íslenskum vinnumarkaði.

Í tilkynningunni segir að það sem sé einstakt við lausn PayAnalytics sé að þegar mæling á launabilinu liggi fyrir geri hún tillögu niður á einstaka starfsmenn um launabreytingu til að loka því. Því til viðbótar megi skoða áhrif launaákvarðana á launabilið áður en þær eru teknar.

„Ísland hefur tekið forystu í jafnréttismálum. PayAnalytics sprettur upp úr sterku jafnréttisumhverfi og hefur þróað lausn sem skarar fram úr á heimsvísu. Fyrir utan að vera góð fjárfesting styður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með fjárfestingu sinni við útflutning á íslenskri þekkingu og þau jafnréttisgildi sem hér hafa verið byggð upp og hlotið hafa alþjóðlegar viðurkenningar. Við erum því mjög spennt fyrir samstarfinu við PayAnalytics teymið og teljum að öflugt tengslanet okkar og þekking muni gagnast við áframhaldandi uppbyggingu og vöxt félagsins,“ er haft eftir Huld Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics, segir lausnina notaða af flestum öflugustu fyrirtækjum landsins. „Á sama tíma er lagaumhverfið að breytast hratt út um allan heim. Í Bretlandi þurfa fyrirtæki nú að mæla og birta launamun kynjanna á hverju ári, í Frakklandi verður bráðum farið að sekta fyrirtæki sem ekki vinna í að minnka launamuninn, og dæmin eru fleiri. Á sama tíma hefur orðið hröð viðmótsbreyting sem enn hefur ýtt undir þörfina fyrir lausnina okkar. Við höfum notið öflugs stuðnings Tækniþróunarsjóðs sem hefur komið okkur þangað sem við erum í dag og með fjárfestingu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins getum við haldið tæknilegu forskoti okkar og hraðað uppbyggingu okkar á markaðssvæðum erlendis.“