Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur fjárfest í í breska tölvuleikjafyrirtækinu Lockwood Publishing, í gegnum fjárfestingafélag sitt Novator. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, fjárfesti sömuleiðis í fyrirtækinu. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Lockwood Publishing var stofnað af Íslendingnum Haraldi Þór Björnssyni árið 2009. „Við vorum í mörgum verkefnum sem verktakar fyrir Sony og vorum meðal annars aðalverktakinn við gerð Playstation Home. Síðan fórum við að gefa út okkar eigið efni fyrir um sex til sjö árum,“ segir Haraldur Þór, framkvæmdastjóri Lockwood í samtali við Fréttablaðið.

Tölvuleikjafyrirtækið gefur út snjallsímaleikinn Avakin Life og spilar yfir milljón manns leikinn á degi hverjum.

Frá stofnun sinni hefur fyrirtækið vaxið ört en Haraldur Þór segir að umsvifin hafi undanfarin fjögur ár tvöfaldast á hverju ári. Velta fyrirtækisins á síðasta ári nam 18 milljónum punda, en alls starfa 115 starfsmenn hjá því. „Þetta er mjög erfiður markaður en hann er risastór þannig að ef vel tekst til þá getur þetta orðið mjög spennandi,“ hefur Fréttablaðið eftir Haraldi Þór.