*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 22. júní 2017 16:22

Fjárfesta í tölvustýrðri framleiðslu

Tækni- og framleiðslufyrirtækið Skaginn hf. hefur fjárfest í sjálfvirkum vélbúnaði til plötuvinnslu.

Ritstjórn
Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans, Jean Marc Fort svæðisstjóri Amada Europe SA og Hjörtur Pálmi Jónsson framkvæmdastjóri Iðnvéla handsala samninginn.

Tækni- og framleiðslufyrirtækið Skaginn hf., sem nýverið hlaut bæði Nýsköpunarverðlaun Íslands og Útflutningsverðlaun forseta Íslands, hefur nú tekið forystu í tölvustýrðri plötuvinnslu hér á landi með því að fjárfesta í sjálfvirkum vélbúnaði til plötuvinnslu. Vélbúnaðinum verður komið upp í nýbyggingu Skagans 3X á Akranesi að því er kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. 

„Það voru Iðnvélar ehf. í Kópavogi sáu um að útvega vél- og hugbúnað frá japanska vélaframleiðandanum AMADA, sem er eitt af leiðandi fyrirtækjum á sínu sviði í heiminum í dag.  Um er að ræða hátæknilega heildarlausn fyrir tölvustýrða plötuvinnslu; hugbúnað sem les 3D teikningar og tölvustýrðar vélar sem vinna málminn. Vélbúnaðurinn er annars vegar tölvustýrð laser-skurðarvél af gerðinni AMADA LCGJ 4020 6AJ með sjálfvirkri inn og útmötun og hins vegar tvær beygjuvélar með sjálfvirkum verkfæraskipti af gerðinni AMADA HG-220/4 ATC. Jafnframt hefur Skaginn3X samið við Iðnvélar um kaup á tveimur sjálfvirkum tveggja spindla rennibekkjum með stangarmöturum af gerðinni HAAS DS-30 og tölvustýrðri fræsivél (CNC) af gerðinni HAAS  VF-3. Með þessum búnaði og sérþjálfuðum starfsmönnum verður Skaginn 3X leiðandi í tölvustýrðri plötuvinnslu hér á landi. 

Systurfélögin Skaginn, Þorgeir og Ellert á Akranesi og 3X Technology á Ísafirði framleiða vörur sínar undir sameiginlegu vörumerki – Skaginn 3X. Þau eru í fremstu röð íslenskra fyrirtækja sem náð hafa árangri á alþjóðlegum matvælamarkaði með vörur sem þróaðar hafa verið hérlendis. Hjá félögunum starfa um 180 starfsmenn og heildarvelta þeirra var um 6 milljarðar á síðasta ári,“ segir þar.